Fara í efni

Ber

Fáðu vöruna beint frá býli nálægt þér

Til að senda fyrirspurn á alla þá sem hafa ber eða berjaafurðir til sölu er best að nota fyrirspurnarformið hér fyrir neða, skoða bæina hér til vinstri hvern fyrir sig, eða skoða hér hvað hver framleiaðndi er að gera.

Krækiber, bláber og aðalbláber hafa verið tínd hér á landi allt frá landnámi.  Margir berjatínslumenn eiga sitt uppáhalds berjasvæði þar sem þeir fylla ílát sín ár hvert. Aðrir ferðast um landið þvert og endilangt til að leita uppi ný berjasvæði og kynnast um leið margs konar náttúru enda útiveran stór hluti berjatínslunnar.

Ber hafa áreiðanlega alltaf verið höfð til matar á Íslandi. Í bók Hallgerðar Gísladóttur, Íslensk matarhefð, kemur fram að samkvæmt íslensku þjóðveldislögunum mátti tína ber upp í sig á eignarlandi annarra en það varðaði sektum að tína þau og flytja burtu. Þar kemur einnig fram að krækiberjavín var bruggað í Skálholti snemma á öldum, sennilega vegna skorts á innfluttu messuvíni.
Berjaskyr var algengur réttur síðsumars og á haustin áður fyrr. Berin voru gjarnan geymd í súru skyri fram eftir vetri eða í sýru og drukkin með henni til bragðbætis. Berin hafa áreiðanlega oft stuðlað að því að draga úr skorti á C-vítamíni, sem var mjög algengur hérlendis, einkum á vetrum. Krækiber eru óvíða borðuð annars staðar en á Íslandi þó þau vaxi í fleiri löndum eins og t.d. á Grænlandi, í Kanada og í Skandinavíu. Samar, Inúítar og norður-amerískir indíánar borða raunar mikið af þeim.

Bláber og aðalbláber eru náskyld en aðalbláberin þykja betri enda sætari og safaríkari. Bláber eru fremur smá hér á landi en þykja bragðgóð. Þau eru vinsælust fersk en einnig notuð í bökur, grauta og í skyr. Þau má frysta og þurrka og gera úr þeim saft, hlaup og sultur. Best er þó að borða berin fersk, næstbest er að frysta þau því þá varðveitist eitthvað af C-vítamíninu en versti kosturinn með tilliti til næringargildis er að gera sultu eða saft.

Finndu söluaðila