Fara í efni

Mjólkurvörur

Fáðu vöruna beint frá býli nálægt þér

Þegar litið er til innihalds mjólkur af næringarefnum er ekki hægt að segja annað en að mjólk sé bráðholl. Í raun er mjólk næringarríkasta einstaka fæðutegundin sem völ er á, ef frá eru talin vítamín- og steinefnabætt matvæli, eins og morgunkorn ýmiss konar. Auk þess að vera próteinrík, er mjólk mikilvæg uppspretta 11 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Tvö mjólkurglös gefa þannig nálægt 100% af áætlaðri dagsþörf 19-30 ára kvenna og karla af kalki, fosfór, joði, ríbóflavíni (B2-vítamíni) og B12-vítamíni og uppundir helming áætlaðrar dagsþarfar af sinki, kalíum, magníum, níasíni, B6-vítamíni og þíamíni (B1-vítamíni). Með áætlaðri dagsþörf er átt við 2/3 af ráðlögðum dagskömmtum (RDS).

Sérstaða mjólkurinnar felst kannski fyrst og fremst í hve góður kalkgjafi hún er, en mjólk er langbesta kalkuppsprettan í fæðunni. Kalk er, eins og flestum er kunnugt, mikilvægur hluti af byggingu beina, og því er mikilvægt að tryggja næga kalkinntöku, sérstaklega á uppvaxtarárum þegar kalkforðinn er að safnast fyrir í beinum. Því meiri kalkforði sem kemur í beinin áður en fullum vexti er náð um tvítugt, þeim mun þéttari verða beinin og minni líkur á beinþynningu á efri árum.

Eiginleikar mjólkurinnar gera að verkum að vinnslumöguleikar eru margbreytilegir, eins og sést á fjölbreytni þeirra afurða sem til eru úr mjólk, allt frá smjöri og ostum til skyrs og mysudrykkja.

Finndu söluaðila