Fara í efni

Svínakjöt

Fáðu vöruna beint frá býli nálægt þér

Svín hafa verið á Íslandi frá upphafi byggðar landsins. Vitað er að svín voru flutt til Íslands með landnámsmönnum og ætla má að þau hafi að mestu gengið sjálfala með öðrum fénaði. Ástæðan fyrir fyrir því að svín virðast hafa verið algeng húsdýr á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er talin sú að á þessum tíma var veðurfar milt, láglendisgróður fjölbreyttur og skóglendi í blóma. Örnefni víða um land benda til þess að svín hafa komið við sögu. Í því sambandi má nefna bæina Svínafell, Galtafell og Galtalæk. Þetta gefur vísbendingar um útbreiðslu svína strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og flest bendir til þess að þau hafi lifað með þjóðinni. Svínabúskapur virðist hafa lagst af á Íslandi á sautjándu eða átjándu öld. Rúmri öld síðar var gerð tilraun til að endurvekja svínarækt á Suðurlandi, en hún náði ekki að festa sig rækilega í sessi

 Árið 1932 voru 138 svín á Íslandi, en síðan tók þeim að fjölga nokkuð og leituðust þeir sem stunduðu svínarækt við að hirða matarleifar frá veitingastöðum, brauðgerðum og sjúkrahúsum sem fóður fyrir svínin, til að spara kaup á fóðri. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar féll mikið til af matarleifum frá breska og bandaríska hernum, sem dvaldist hér, og fjölgaði svínum töluvert í kjölfarið. Eftir stríð dró aftur úr svínabúskap og það er ekki fyrr en á allra síðust árum sem hann hefur eflst verulega og æ fleiri Íslendingar borða svínakjöt, jafnt hversdags sem til hátíðarbrigða.Svín eru klaufdýr  en ekki jórturdýr. Að útliti og eiginleikum hefur íslenska svínið tekið töluverðum breytingum í tímans rás. Þegar kom fram á 20. öld hófst markviss ræktun svínastofnsins. Flutt voru inn svín af svokölluðu dönsku landkyni og af breskum kynjum til blöndunar við þann stofn sem fyrir var.

 Stærsta framfarskrefið í svínarækt á Íslandi var tekið árið 1994 þegar Svínaræktarfélag Íslands stóð að stofnun einangrunarstöðvar fyrir svín í Hrísey í Eyjafirði. Innflutningur hófst sama ár og var norskum gyltum komið í sóttvarnareinangrun í Hrísey, en síðan kynbótagripum dreift þaðan til svínabænda á árunum 1995 og 1996

 Þar með hófust skipulegar kynbætur á íslenskum svínum með nýju erfðaefni sem fólust í því að svínabændur ólu sláturgrísi, sem voru blendingar úr íslensku og norsku svínunum. Þessar markvissu kynbætur hafa skilað gríðarlegum árangri. Vöxturinn er hraðari og kjötgæði hafa aukist.

Svínabú hér á landi eru mjög tæknivædd. Á stærri búunum er fóðrunin alsjálfvirk. Að stærstu hluta eru svínin fóðruð með byggi, hveiti og sojamjöli. Á síðustu árum hefur hlutur innlendrar kornframleiðslu í fóðrun svínanna aukist umtalsvert og í ljósi mikilla hækkana á korni á alþjóðlegum mörkuðum er fyrirsjáanlegt að svínabændur munu í auknu mæli fóðra svínin með íslensku korni. Svínabúum á Íslandi hefur fækkað verulega á undanförnum árum, en jafnframt hafa þau stækkað og framleiðslan aukist. Þróunin er því ekki ósvipuð og í nágrannalöndunum, þar sem hagkvæmnin felst í að reka stór bú.Góð afkoma svínabænda byggist á því að hugsa vel um svínin, fóðrunin þarf að vera fyrst flokks og lykilatriði er að svínunum líði vel.

Finndu söluaðila